Ákveðið hefur verið að klára hugmyndavinnu og hönnun á sameiginlegri gestastofu Snæfellsness á Breiðabliki. Styrkur til þess fékkst úr Framkvæmdasjóði Ferðamannastaða. Þetta var samþykkt samhljóma á fundi eigendaráðs Svæðisgarðsins Snæfellsness mánudaginn 3. apríl. Fyrir liggur viljayfirlýsing um samstarf við Safe Travel um að setja upp öryggisupplýsingar í gestastofunni.
Undirbúningur þessa verkefnis fór á fullt eftir að eigendaráðið kom síðast saman í nóvember s.l. og ákvað að kanna möguleika á sameiginlegri gestastofu Snæfellsness. Svæðisgarðurinn vann verkefnið í samstarfi við atvinnuráðgjöf SSV og ráðgjafarfyrirtækið ILDI í Grundarfirði. Farið var í forverkefni í Eyja-og Miklaholtshreppi þar sem eigendur félagsheimilisins Breiðabliks búa. Niðurstaða þess var sú að húsið standi til boða fyrir gestastofu, þó þannig að hægt verði að nota það áfram sem félagsheimili. Í febrúar var haldið vel sótt námskeið um gestastofur og upplýsingamiðlun til ferðamanna. Þar unnu þátttakendur verkefni um Gestastofu Snæfellsness, sem eru hluti af hugmyndavinnunni á þessu undirbúningsstigi.

Hugmyndasmiðja
Næst var efnt til hugmyndasmiðju á Breiðabliki, 11. mars, þar sem ríflega 30 Snæfellingar tóku þátt, búsettir í öllum sveitarfélögum á Snæfellsnesi, m.a. starfandi í ferðaþjónustu, upplýsingamiðlun og sveitarstjórnum.
Þar kom fram stuðningur við hugmyndina um Gestastofu Snæfellsness og sterkur samhljómur um áherslur og forgangsröðun í uppbyggingu hennar og starfsemi. Þátttakendur töldu félagsheimilið Breiðablik henta vel fyrir gestastofu, en auk þess ætti að stefna að þéttu neti í upplýsingamiðlun og samræmdu útliti á skiltum. Umferðaröryggi, veður, veglengdir og upplýsingar um þjónustu og afþreyingu var meðal þess sem þátttakendur töldu mikilvægt að miðla til gesta, þegar þeir koma inn á svæðið.
Auk upplýsingamiðlunar inni í húsinu, komu tillögur um upplýsingamiðlun á útisvæði, leiksvæði, tjaldsvæði / aðstöðu fyrir hús- og gistibíla, sorpmóttöku og aðgang að salernum. Huga ætti að samræmdri upplýsingagjöf og birtingarmynd Snæfellsness á netinu og lagði einn hópur til að gert yrði app í því skyni.

Framkvæmt í áföngum
Til að verkefnið takist þurfa Snæfellingar að standa saman, fjármagna það, bretta upp ermar og byrja! Þetta sögðu þátttakendur í hugmyndasmiðju og töldu flestir að byrja ætti strax á fyrsta áfanga á Breiðabliki. Mikilvægt væri að hafa skýra sýn á hvernig lokaútkoman ætti að vera og vinna út frá henni frá upphafi.
Markmiðið með Gestastofu Snæfellsness er að gestir fái tilfinningu fyrir því að Snæfellsnes sé sérstakt og heildstætt svæði. Skýr og vönduð upplýsingamiðlun til ferðamanna, mun ekki aðeins koma þjónustuaðilum til góða, heldur öllu samfélaginu. Nú munu vinnuhópar á vegum Svæðisgarðsins taka við og rýna í hugmyndir út frá fjármögnun og hönnun.