Sælir ágætu íbúar.
Um leið og ég vil óska ykkur gleðilegra jóla langar mig til að senda ykkur nokkrar línur um verkefnið Betra ljós, ljósleiðaraverkefnið. Hef ekki verið of duglegur við það en mikið hefur verið að gera í því verkefni allt árið en þó sérstaklega nú í haust.
Rarik lagði af stað í byrjun ágúst og var þá lagður ljósleiðari með rafmagnskaplinum frá spennistöðinni við Vegamót að Rauðkollsstöðum. Samið var við verktakann sem lagði á Rarikhlutanum að klára alla ljósleiðaralagningu á þeim hluta. Því miður var það ekki klárað að fullu en það verður gert í vor. Í lok október var samið við tvo verktaka eftir verðkönnun um það sem ég kalla vestara svæðið og austasta svæðið. Á báðum hlutum var lagt af stað 3. nóvember og voru kaflarnir svipað margir kílómetrar. Spáin var góð svo ég taldi miklar líkur á að við næðum að plægja niður í allt sveitarfélagið. Vestari hlutinn gekk mjög vel, farið var um 20 km til 11. nóvember en staðan á austasta hlutanum er sú að ekki náðist að fara nema um 8 km. Ekkert er við því að gera en verður farið í það sem eftir er í vor.
Við tók að blása ljósleiðarakapli í rörin en stofninn í gegnum sveitarfélagið er lagður með þeim hætti. Eins og öllum góðum verkum sæmir eru þau ekki vandamálalaus en verktakanum sem kom í það verk gekk erfiðlega en einnig var ljóst að einhverjar skemmdir voru á rörunum sem höfðu orðið við niðursetningu. Skriður komst ekki á málið fyrr en fenginn var annar verktaki til þess að blása í rörin en einnig tafði veðrátta fyrir. Það tókst hins vegar að ljúka því verki í síðustu viku. Mikil vinna er við að splæsa ljósleiðarann saman í brunnunum og er það verk farið af stað og kominn skriður á það mál.
Í gær var svo stór áfangi en Breiðablik var tengt við ljósleiðarann og ljóst að tengingin við símstöðina í Gröf er farin að virka.
Ekki verða fleiri tengdir fyrir jól en eftir áramót verður farið í það af fullum krafti að tengja inn en ljóst að það mun taka einhvern tíma. Það mun hins vegar mikið gerast í tengingum í janúar og að sjálfsögðu vonum við að tíðarfar tefji það ekki.
Hreppsnefnd fór yfir reglurnar vegna þessa verks á fundi 17. desember og vil ég biðja ykkur um að kynna ykkur þær og gott ef þeir sem vilja breyta umsókn sinni geri það fyrir 10. janúar. Einnig væri gott ef einhverjir hafi gleymt að sækja um sem vilja tengjast, geri það fyrir 10. janúar en með því að sækja um er litið svo á að aðilar undirgangist þær reglur sem gilda um verkefnið og því ekki hægt að koma með tengiboxin fyrr en það hefur verið gert.
Allt árið hefur verið unnið mikið í kringum þetta verk af hálfu hreppsnefndar og afar mikilvægt hefur verið að hún hefur verið einhuga í þessu máli og staðið saman bæði að undirbúningi og framkvæmd. Þegar um svo mikilvægt mál er að ræða fyrir okkar samfélag eins og þetta skiptir gott samstarf í hreppsnefnd mjög miklu máli.
Þó svo að íbúum finnist kannski ekki mikið hafa gerst undanfarið hefur samt verið unnið mikið í þessu máli og við erum kominn á þann stað að tengipunkturinn er farinn að virka í símstöðinni í Gröf og nú er verkefnið að splæsa í brunnum og setja tengiboxin inn hjá ykkur sem komin eru með ljósleiðarann inn til ykkar.
Strax í vor verður svo farið í að leggja ljósleiðara þar sem það er ekki búið og ekki eru líkur á öðru en ljósleiðaraverkefninu verði lokið í lok júní eins og stefnt var að í upphafi.
Með kveðju,
Eggert Kjartansson
oddviti Eyja og Miklaholtshrepps.