Það hafa nokkur mál verið á borði hreppsnefndar sem okkur langar til að fara yfir þannig að þið getið betur áttaað ykkur á þeim.

Breiðablik.

Í töluverðan tíma hefur verið í undirbúningi Gestastofa Snæfellsness að Breiðabliki,  tilraunaverkefni um upplýsingarmiðstöð Snæfellsnes hófst 2017 sem tókst mjög vel og hefur ekki verið lokað síðan. Í haust fengum við styrk upp á kr. 15.000.000,- til að fara í verkefnið eins og við vildum. Framkvæmdir á Breiðabliki standa yfir núna og verður væntanlega lokið fyrir páska.

Markmiðið með opnun Gestastofu Snæfellsnes frá hendi Svæðisgarðsins Snæfellsnes eru m.a.

  • Að stýra umferð á þá áfangastaði sem tilbúnir eru og verja þá um leið íbúa sem ekki vilja ágengni ferðamanna.
  • Fræða ferðamenn um það sem í boði er á Snæfellsnesi, þjónustu og vörur.
  • Tryggja sem best öryggi ferðamanna á svæðinu.

Frá hendi Eyja og Miklaholtshrepps.

  • Auka notkun á félagsheimilinu okkar.
  • Taka þátt í að móta ferðaþjónustu til framtíðar í samstarfi við Svæðisgarðinn ( sveitarfélög á Snæfellsnesi + félög í atvinnulífi)
  • Tryggja ferðamönnum aðgang að salernum allan sólahringinn.
  • Auka tækifæri íbúa til atvinnu.
  • Tryggja jafnframt enn betur en verið hefur að hægt verði að halda við húsinu Breiðablik.

Nánari samningar við Svæðisgarðinn verða kynntir seinna.

Aðalskipulag.

Nú er að fara í auglýsingu metnaðarfullt aðalskiplag fyrir samfélagið okkar. Eins og fram kemur í bókun hreppsnefndar frá 20. febrúar 2019

„Hreppsnefnd lýsir yfir ánægju sinni með aðalskipulagstillöguna og þau tækifæri sem í henni eru fyrir fyrirtæki og íbúa. Sérstaklega eru inn í tillögunni möguleikar á uppbyggingu í ferðaþjónustu á Vegamótasvæðinu, Miðhrauni II og Eiðhúsum. Ef þessar hugmyndir verða að veruleika mun það skipta okkar samfélag miklu máli. Einnig mun þessi uppbygging hafa jákvæð áhrif á ferðaþjónustu á öllu Snæfellsnesi. Til að bregðast við og undirbúa okkar samfélag fyrir þessa vonandi miklu uppbyggingu tók hreppsnefnd frá land við Laugargerðisskóla fyrir íbúðabyggð og fyrirhugað er að hefja vinnu fljótlega við að deiliskipuleggja það svæði.“

Í þessu felast mörg tækifæri og vonandi verða þau nýtt. Ef svo verður er ljóst að miklar breytingar eru framundan. Það er okkar að búa til  jákvæðan farveg og það getur okkur tekist saman.

Laugargerðisskóli.

Á síðasta kjörtímabili stóðu yfir viðræður við þau sveitarfélög sem áttu í Laugargerðisskóla með okkur og endaði það með því að við keyptum þau út og eigum við því allt húsnæðið og einnig talsvert land í kring. Er þetta mjög jákvætt og gefur okkur tækifæri á að nýta okkar það til uppbyggingar og er sú vinna hafin.

Eins og flestum er ljóst var ákveðið í sumar að láta gott heita með samstarf við Klár ehf sem rekið hefur Hótel Eldborg í mörg ár en samningur fyrirtækisins við Eyja og Miklahotlshrepp rann út í sumar. Mikill kraftur og líf hefur komið á vorin með þeim Óla og Gunsu. Viljum við þakka þeim fyrir samstarfið.

Það sem hreppsnefnd er að vinna að og með í undirbúningi er að deiliskipuleggja íbúðarbyggð fyrir ofan íbúðarhúsin í Laugargerði þannig að það verði tilbúið svæði ef til mikillar uppbyggingar í samfélaginu kemur. Jafnframt er hreppsnefnd að skoða frekari nýtingu á vistunum í skólanum sem og íbúðinni sem leikskólinn var í. Allt til þess að skapa tækifæri fyrir nýja íbúa að flytjast til okkar.

Það skal tekið fram að við erum stolt af skólanum okkar og ekkert annað á döfinni en að halda áfram með hann enda mikil og góð vinna sem þar fer fram.

Allar hugmyndir um aukið líf í kringum Laugargerði mun ekki gera neitt annað en styrkja skólastarfið sem þar er fyrir.

Það er þannig með mörg  sveitarfélög að með auknum íbúafjölda fylgir aukin innviðauppbygging, hér er hins vegar allt til alls, skóli, leiksskóli, íþróttahús og flottur leikvöllur auk sundlaugar. Við getum því verið stolt af okkar svæði og erum tilbúin fyrir uppbyggingu í samfélaginu sem vonandi veðrur ef tækifærin í aðalskipulaginu verða nýtt af íbúum og fyrirtækjum.

Minni samfélög.

Við þurfum að hámarka kosti og lámarka galla við að búa í fámennu samfélagi. Gagnrýnin umræða er góð, þ.e. að rýna til gagns. Hreppsnefndin er sannfærð um að með jákvæðni að leiðarljósi takist okkur að vinna saman að því að skapa umgjörð fyrir uppbyggingu í Eyja- og Miklaholtshrepp, bæði nýsköpun og framróun.

 

Hofsstöðum, 4. mars 2019

 

Eggert Kjartansson

oddviti Eyja og Miklaholtshrepps.