Í landi Borgar er mikil og sérkennileg klettaborg umkringd háu standbergi allt um kring. Borgin eða Borgarborg eins og hún er yfirleitt kölluð er liðlega 200 m í þvermál og hæðin 20 – 30 m. Klífa þarf einstigi til að komast upp á Borgina.

Almælt hefur verið að ljós sæjust stundum í Borgarborg á vetrarkvöldum, björt og skær, jafnan suðaustan í klettunum. Eru að þessu mörg vitni.borgarborg

Almennt er talið að bannhelgi hvíli á Borgarborg. Þar má ekki fugl drepa eða neina skepnu né heldur jarðrask gera eða steinum kasta. Þetta hefur verið virt að því er best er vitað fram á þennan dag.

Frásögn er í Sturlungu sem ótvírætt á við Borgarborg og atburði þá sem þar gerðust og verður greint lítillega frá.

Það var sumarið 1234, fjórum árum fyrir Örlygsstaðabardaga sem atburðirnir áttu sér stað. Ófriður er þá með mestu móti meðal Sturlunga.

Deiluaðilar að þessu sinni voru bræðurnir Snorri Sturluson og Þórður Sturluson, yfirleitt friðsemdarmenn og síðan synir þeirra, miður friðsamir, Órækja Snorrason, Böðvar Þórðarson (faðir Þorgils Skarða) og Sturla Þórðarson sagnaritari. Hér verður ekki nánar farið út í ástæður þessara deilna, ferðalanganna og aðgerðanna er af þeim leiddu.

Deilunum lauk hins vegar eftir að Böðvar og hans lið komst upp á Borgarborg, en her Órækju var fyrir neðan Borgina. Þá var leitað sátta, sem tókst.

Það er því söguleg staðreynd að fyrir einstaka varnaraðstöðu á Borgarborg tókst að fá þar sett grið með mönnum og sættir og afstýra þannig háskalegum átökum og mannvígum. Hefði liðsflokkum þessum lostið saman með fullri tölu á báðar hendur má vafalaust gera ráð fyrir að þarna hefði orðið meiri háttar orrusta, líklega sú þriðja eða fjórða stærsta á þeirri öld að mannfjölda til.

Heimild

Tíminn 23. desember 1979. Höf: S.Ól.

Hér má lesa greinina í heild